Jack H. Daniels

Svarthol Hugans

Hrár sannleikur.
Hrár sannleikur.

Nú, þegar tæp vika er liðin af nóvember er frekar óhugnalegt að fylgjast með stöðufærslum fólks á samfélagsmiðlum þar sem augljóst er að fólk kvíðir framtíðinni.  Mjög margt fólk er ekki að ná endum saman yfir mánuðinn og þó svo stjórnarherrarnir gaspri í fjölmiðlum um að hér á landi sé bullandi hagvöxtur, minnkandi atvinnuleysi og bullandi launaskrið, þá er samt sem áður stór hópur fólks sem sér fram á það að eiga ekki fyrir mat og öðrum nauðsynjum út mánuðinn.
Svo styttist í jólin.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra skrifaði í morgunn status á Facebook þar sem hún deildi frétt frá MBL, (að sjálfsögðu) þar sem segir að minnst hætta sé á fátækt á Íslandi borið sam­an við 28 ríki Evr­ópu­sam­bands­ins auk Nor­egs og Sviss. Þetta kem­ur fram í töl­um frá Eurostat, hag­stofu sam­bands­ins, sem birt­ar voru í dag.
Fram kem­ur að hlut­fallið á Íslandi sé 13% af heilda­r­í­búa­fjölda lands­ins eða í kring­um 40 þúsund manns. Hlut­fallið hef­ur þó hækkað frá ár­inu 2008 þegar það var 11,8% en meðaltalið innan Evrópusambandsins er 28.5%.
Þar segir Eygló:

Hlut­fall þeirra sem eiga á hættu að verða fá­tækt að bráð eða fé­lags­legri út­skúf­un er lægst á Íslandi borið sam­an við 28 ríki Evr­ópu­sam­bands­ins, Nor­eg og Sviss. Þetta kem­ur fram í töl­um frá Eurostat, hag­stofu sam­bands­ins, sem birt­ar voru í dag. Hins vegar getum við gert enn betur líkt og tölur fyrir hrun gefa til kynna. Þeir starfshópar sem starfa á mínum vegum hafa bent sérstaklega á stöðu barnafjölskyldna og mikilvægi þess að ná niður húsnæðiskostnaði fyrir lægri tekjuhópana. Það á að vera markmið okkar allra, að lækka enn frekar hlutfall þeirra sem búa við fátækt eða félagslega útskúfun.

Fimm bloggfærslur hafa verið skrifaðar við þessa frétt á Mbl.is þegar þetta er ritað og nokkuð athyglisvert að lesa þær færslur í ljósi þess hverjir það eru sem skrifa þær.

G. Tómas Gunnarsson skirfar meðal annars:

Þegar ég las þessa frétt (sem þessi færsla er hengd við), og hafði einnig lesið þessa frétt (sem ég sá bent á í annari bloggfærslu), datt mér í hug þessi frétt.

Rúnar Már Bragason hefur sitt að segja um þetta mál:

Það sem einna athyglisverðast við þetta er að í flestum evrópuríkjum hefur ástandið versnað og meiri hætta er á að lenda í fátækt en fimm árum áður. Hins vegar er alveg ljóst að Ísland stendur mjög vel gagnvart fátækt og minni líkur en öðrum evrópulöndum, meira segja Noregi.

Blogg sem kallast Fullveldi og segir sig vera samtök um rannsóknir á ESB og tengslum þess við Ísland segir í sinni færslu:

Hvernig væri, að Samfylkingarmenn færu að taka mark á veruleikanum og hætta að góna endalaust á fjarlægar útópíur sem innistæðulausar reynast, þegar betur er að gáð?! Og hvað er þessi viti firrta umsóknar-ævintýramennska búin að kosta landið í mannárum embættismanna, þrálátum flugferðum til Brussel og almennri áþján á stjórnmálalífi landsins?

Páll Villhjálmsson sem segist vera blaðamaður og ekki baugsmiðill, (augljóslega því hann er svo augljóslega hallur undir LÍÚ klíkuna) talar um fréttafölsun í sínum pistli.

Fréttafölsun er svo ríkur þáttur í íslenskum fjölmiðlum að enginn þeirra, utan Viðskiptablaðið, þorir að halda úti fjölmiðlarýni. Íslenskir fjölmiðlar eru þeir lélegustu á vesturlöndum.

Síðast en ekki síst ætla ég að vísa í blogg okkar “ástsælasta” penna á alnetinu og þó víðar væri leitað en Jón Valur Jensson segir hér:

En Svavar Knútur var illa í stakk búinn til að tala um dónaskap. Beint fyrir framan hóp barna, sem fremst voru í hópi hlustenda, fór hann með þvílíkan sóðaskap í orðum, að viðlíka óhroði hefur naumast áður heyrzt á slíkum fundum, hvað þá í Ríkisútvarpinu, en Rúvið sá þó ástæðu til að sjónvarpa þessum ummælum tvívegis sama kvöldið (í fréttatíma og Kastljósi).

Er annað hægt en að elska Jón Val fyrir gífurlega upplýsandi og málefnalegan flutning á blogginu sínu?
Hann er svo sannarlega með allt á hreinu þegar kemur að þessum málum og förlast aldrei í málflutningi sínum sem einhver heitasti og öflugasti hundsrakki sem gjammað hefur fyrir stjórnarherra sína.
Hann minnir mig einhvern vegin alltaf á lítinn sætan smáhund sem hefur þann sið að laumast aftan að fólki og bíta það í hælana þegar það snýr við honum baki en gjamma út í eitt, vel falinn undir pilsfaldi eigenda sinna þegar að honum er snúið.

En nóg um annara manna blogg og bullfærslur og aftur að kjarna málsins.

Er það ásættanlegt að í smáríki eins og íslandi skuli vera sú hætta fyrir hendi að allt að 40 þúsund manns skuli vera í hættu á að verða fyrir félagslegri útskúfun og um 42 þúsund nú þegar skráð undir fátæktarmörkum þegar þjóðin telur rétt rúmlega 320 þúsund hræður?

Það er staðreynd hvað svo sem ráðamenn í þessu landi segja að fátækt er að aukast.
Tekjur lægst launuðu hópana í landinu eru ekki að aukast og ef maður skoðar bara það sem fólk er að segja, láglaunafólk, öryrkjar og aldraðir svo dæmi séu tekin, þá endast launin alltaf skemur og skemur fram í mánuðinn af því verðlag er stöðugt að hækka.

Það sem maður finnur hjá fólki í dag er vonleysi.
Gífurlegt vonleysi, kvíði fyrir framtíðinni og þunglyndi.
Ég man persónulega ekki eftir því að vera orðinn blankur fyrsta dag mánaðarins þegar ég var búinn að borga reikningana mína og þó náði ég ekki að klára því eftir standa reikningar upp á um 40 þúsund sem ég veit ekkert hvernig ég á að fara að því að greiða.

Ég veit heldur ekki hvernig ég á að lifa út mánuðinn því það eru engir peningar til fyrir mat heldur.

Ég er ekkert sá eini í þessari stöðu og það sést vel ef farið er yfir samfélagsmiðlana.  Það er fullt af fólki í þessari stöðu og jafnvel enn verri stöðu.  Barnafólk sem á ekki fyrir mat handa börnunum sínum svo dæmi sé tekið og á meðan hreykja stjórnarliðar sér af því að hér sé bullandi hagvöxtur og launaskrið.

Í hvaða heimi lifir þetta fólk, spyr ég bara?

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Umsagnir

Svipað efni