Vigdís og bloggsamfélagið

1230 Skoðað

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.

Vigdís Hauksdóttir hefur enn og aftur verið í eldlínunni vegna ummæla sinna. Deilt er á hana á þeim forsendum að hún hafi sýnt það að henni sé ekki treystandi til að misnota ekki fjárreiðuvald í þágu sinna eigin hápólitísku skoðanna og nú er í gangi undirskrifasöfnun þar sem hún er hvött til að segja af sér formennsku í Fjárlaganefnd Alþingis og úr Hagræðingarhópi Ríkisstjórnarinnar. Spurð út í hana gefur hún lítið fyrir framtakið þar sem það komi úr bloggsamfélaginu.

Hér er fróðlegt að rifja upp hvað Vigdís hefur sagt um svipuð framtök áður. Ber þar líklegast hæst eftirfarandi tilvitnun úr þingræðu hennar, þar sem hún er einmitt að hamra á því að þó að flokkar séu komnir til valda sé ekki þar með sagt að þeir geti farið með það vald sitt eins og þeim sýnist:

„Þegar leið á kynninguna fór ég að hugsa hversu einkennilegt það er að hægt sé að koma svona fram, að þegar stjórnmálaflokkar komist til valda í ríki skuli þeir ætla að breyta ríkinu eftir eigin höfði í ósátt við alla aðra. Það er stór hópur Íslendinga sem er ósáttur við þetta og undirskriftasöfnun er farin af stað. Á meðan á þessum klukkutímafundi stóð í hádeginu söfnuðust á milli 400 og 500 undirskriftir, bara til þess að mótmæla þeirri valdbeitingu sem birtist til dæmis í því frumvarpi.“

Kannski þetta tiltekna framtak sem hún hampaði þarna sé þó ekki komið úr bloggsamfélaginu og sé því merkilegra og marktækara en það sem er í gangi henni til höfuðs núna.
Hver veit?

1230 Skoðað