Vigdís Hauks hótar niðurskurði á Rúv í kjölfar fréttaflutnings á IPA styrkjum ESB

1441 Skoðað

Vigdís er rotna eplið í tunnu Framsóknar
Vigdís er rotna eplið í tunnu Framsóknar

Þegar þingmaður og formaður fjárlaganefndar hótar því að beita áhrifum sínum í krafti stöðu sinnar í hagræðingarhópnum sem á að fjalla um niðurskurð í fjármálum ríkisins gegn Ríkisútvarpinu, útvarpi allra landsmanna, hlýtur fólk að spyrja sig á hvaða stigi siðferðisvitund viðkomandi þingmanns liggur.
Vigdís Hauksdóttir var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún ræddi IPA styrkina svokölluðu sem hún hefur kallað „glópagull“. Í frétt RÚV í gærkvöldi var reyndar haft eftir henni að styrkirnir væru „illa fengið glópagull“ en það var leiðrétt síðar í fréttatímanum eftir að Vigdís hafði hringt upp í Efstaleiti og krafist leiðréttingar.
Hún gaf sterklega til kynna að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar muni leggja til að skorið verði niður í rekstri RÚV.

Aðspurð hvort hún muni taka þessi vinnubrögð RÚV lengra, svaraði Vigdís:

Ég er náttúrulega í þessum hagræðingarhópi.

Vigdís ítrekaði jafnframt þá skoðun sína að IPA styrkir Evrópusambandsins væru „glópagull“. Forstöðumenn ríkisstofnana hafi farið á ferð og flug og farnar hafi verið fjölmargar ferðir til útlanda í tengslum við aðildarumsóknina.

Um leið og peningar eru í boði og gulrótin hangir fyrir framan nefið á einhverjum, þá verður allt vitlaust.

Þarna vísar hún í það sem hún sagði fyrr í vikunni í viðtali við Rúv, að stjórnendur ríkisstofnanna sem hafa fengið IPA styrkina séu ,,mútuþægnir landráðamenn.”

Það skal haft í huga að Vigdís Hauksdóttir var skipuð sem formaður fjárlaganefndar af báðum stjórnarflokkunum og nú er það undir formönnum flokkana komið hvort það verði látið viðgangast að þingmaðurinn geti hagað sér með þessum hætti.  Þær ásakanir sem hún hefur slengt fram, bæði á hendur Rúv og eins á hendur fostöðumönnum ríkisstofnanna er fyrir það fyrsta algerlega ósæmandi manneskju í hennar stöðu og í annan stað setur það stórt spurningarmerki við siðferði og heiðarleika viðkomandi þingmanns.

Það hreint út sagt alger skandall hvernig þessi kona hagar sér, talar og hótar blákalt fólki og fyrirtækjum sem henni hugnast ekki.  Svona lagað þarf að stoppa og það ekki seinna en strax.

1441 Skoðað