Öryrkjar eru vanmetin auðlind á íslandi

Svarthol Hugans

Öryrkjar eru vanmetin auðlind á íslandi

Skoðað: 1968

Falin auðlind.

Það er ömurlegt að horfa upp á það á hverjum einasta degi hvernig fólki sem á við veikindi eða fötlun að stríða er hent eins og hverju öðru rusli í einhvern afkima í þjóðfélaginu þar sem þeir geta bara rotnað niður og beðið dauða síns.  Atvinnurekendur líta á fólk sem hefur unnið fyrir þá árum og jafnvel áratugum saman eins og verkfæri eða tæki sem hefur þjónað sínum tilgangi og endar þá bara á skranhaug fyrirtækisins og enginn lítur framar við því.

Stjórnmálamenn á íslandi eru eins.  Það er engin framsýn eða langtímasýn hjá þessu fólki, allt verður þeim að vandamálum sem þeir telja óleysanleg þegar kemur að veiku og fötluðu fólki, það er of dýrt að halda því uppi og þetta fólk er því baggi á samfélaginu, sér í lagi af því þetta fólk skapar ekki skammtímagróða fyrir atvinnurekendur og það er alveg möguleiki á að það „gæti“ verið frá vinnu af og til vegna veikinda.
Lausnamiðaðar hugsanir eru ekki til staðar í steingerðum heilabúum þeirra þar sem allt gengur út á að spara í ríkisrekstri, draga úr þjónustu og helst að láta einkageirann um lausnirnar og moka svo peningum úr ríkissjóði í botnlausa hít græðisvæðingarinar.

Hvernig væri nú ef þingmenn og ráðherrar ásamt atvinnurekendum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana færu aðeins vakna og horfa á þá endalausu möguleika sem það mundi bjóða upp á að hafa öryrkja í vinnu, bæði fyrir stjórnvöld sem og atvinnurekendur.

Með skerðingum eins og krónu á móti krónu af atvinnutekjum eða almennt bara ef einhverjar tekjur koma í vasa öryrkja, þá dregur það úr vilja og áhuga á að stunda einhverja vinnu.  Það vill enginn vinna ókeypis eða það sem verra er, borga með sér þegar skerðingar og skattar ásamt útgjöldum við að komast á milli staða er orðin meiri en ávinningurinn af því að vera í vinnu.
Þá er þetta orðið þrælahald.
Löglegt kanski en gjörsamlega siðlaust og ríkið græðir á því.

Það er því frumskilyrði til að fá öryrkja út á vinnumarkaðinn að SA, stjórnvöld og ÖBÍ vinni saman að raunhæfum markmiðum til framtíðar og hætti þessum skyndilausnum sem gera hlutina bara verri þegar á heildina er litið.
Byrja á að afnema allar skerðingar hjá öryrkjum á tekjum upp að 500. þúsund krónum á mánuði.

Nú spyr ég atvinnurekendur einnar spurningar.
Er dýrara að vera með tvo einstaklinga í 50% starfi en einn í 100% starfi?
Sé svarið já, þá spyr ég, hvað veldur því?
Sé svarið nei, þá spyr ég hvort ekki væri hægt að ráða tvo öryrkja í 50% starf?

Ég ætla að stela hér lokaorðum úr grein í Stundinni þar sem Axel B. Stefánsson segir:

Eins undarlegt og það er virðist erfiðast að ná fram breytingum þar sem allir græða en ekki bara fámenn klíka eða hópur. Ef öryrkjar fengu alvöru tækifæri til hlutavinnu, greiða þeir fullan skatt af þeim tekjum. Tekjur sem hægt væri að nýta í samgöngu-, heilbrigðis- eða menntakerfið. Ég vona að einn daginn skilji samfélagið okkar að örykjar eru vannýtt auðlind. Það eina sem við þurfum er að leyfa þeim að taka þátt í að skapa verðmæti og annan samfélagslegan auð.

Það væri óskandi að stjórnvöld á íslandi færu að vakna og átta sig á því að þeir eiga að vinna fyrir alla íslendinga en ekki bara þá ríkustu.

Skoðað: 1968

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

komment