Aldraðir = úrkast þjóðfélagsins

Svarthol Hugans

Aldraðir = úrkast þjóðfélagsins

Skoðað: 2359

Þetta er það sem öldruðum er boðið upp á í dag af stjórnvöldum.

Þetta er það sem öldruðum er boðið upp á í dag af stjórnvöldum.

Það er óhugnalegt að lesa lýsinguna sem kom í stöðufærslu á Fésbókinni í dag, en þar segir Margrét Oddný hvernig komið er fram við aldraða í landinu.

„Á ég þá bara að vera á vergangi það sem eftir er og flakka með eina ferðatösku á milli sjúkrastofnanna í hvíldarinnlögn hér og þar?“ Það er ekki auðvelt að horfa í augu aldraðrar móður sinnar þegar hún segir þettta. En ég get ekki meira. Hún er búin að búa í pínu litlu stofunni minni síðan í júlí 2014. Á bið eftir hjúkrunarrými frá því í nóvember 2014. Af hverju þarf hún að bíða? Það er ekki eins og þeir muni sitja uppi með hana árum saman því krabbameinið mun sigra hana fyrr en seinna. Það eru ekki til peningar segja sumir. Kjaftæði. Þess eru jafnvel dæmi að það séu laus pláss á dvalarheimilum sem ekki má úthluta vegna þess að fjármagn þess árshluta er uppurið. Hvaða endemis þvæla er það? Þegar þú hringir á sjúkrabíl færðu ekki svarið: „Nei, við komumst ekki í dag því við erum búnir með bensínpeningana þessa vikuna.“ Á meðan dvalarheimili þessa lands fá ekki borgað með viðkomandi eldri borgara vegna þess að þeir eru búnir að taka of marga að sér á of stuttum tíma þá er samt borgað með sama eldri borgara á spítala sem er margfalt dýrara úrræði. Það er sami aðili sem er að borga þessar fjárhæðir – Ríkið. Kann þetta fólk ekki að reikna? Þetta samfélag gæti slegið tvær flugur í einu höggi, sparað fjármuni og sýnt þessari kynslóð sem hefur borið okkur á höndum sér lágmarks virðingu. Mömmu langar að eiga látlaust heimili og öruggt skjól síðustu metra ævihlaups síns. Hún er ekki að biðja um að búa í höll, hana vantar bara eitt lítið herbergi þar sem hún getur haft bækurnar sínar, handavinnuna og blómin sín og fengið lágmarks umönnun – sem hún hefur svo sannarlega sjálf veitt fólki í tuga- ef ekki hundraða tali gegnum ævina. Við erum öll sammála að þetta er sanngjörn og hógvær krafa. Samt höfum við ekki sem samfélag sýnt neinn vilja til að breyta þessu. Þetta er ekkert flókið, það þarf bara að ganga í þetta verk og ekkert kjaftæði um peningaleysi. En nei, þetta er aldrei sett á oddinn. Þetta nær ekki einu sinni að verða kosningaloforð sem síðan er svikið. Við erum aumingjar sem byggjum þetta land. Bölvaðir aumingjar.

Á öðrum stað segir Birgitta Kristinsdóttir á sinni síðu og beinir orðum sínum til Sigmundar Davíðs.

„Elsku Sigmundur Davíð!

Hver var það sem hjálpaði þér að koma í heiminn?
Hver var það sem sá um þig í leikskóla?
Hver var það sem kenndi þér í barnaskóla?
Hver var það sem hlúði að þér þegar þú slasaðir þig sem barn?
Hver var það sem fylgdist með því að kona þín og dóttir voru heilbrigð á meðgöngunni?
Hver var það sem tók á móti dóttur þinni þegar hún fæddist?
Hver tók á móti ykkur í ungbarnaskoðun og fylgdist með því að dóttir þín væri að vaxa og dafna eðlilega?
Hver verður það sem mun hugsa um foreldra þína þegar þau fara á elliheimili?
Hver mun hugsa um þig ef þú veikist? Já eða kona þín eða dóttir???

Farðu nú að vakna og hugsaðu um hinar mikilvægu stéttir sem eiga skilið mannsæmandi laun, annars verður enginn eftir þegar þú þarft aðhlynningu þegar þú verður gamall og enginn til staðar til að taka á móti þínum barnabörnum !!!“

Það þarf að halda þessu til haga og minna silfurskeiðungana á hverjir það voru sem komu þeim í þær valdastöður sem þeir eru í og hvaða fólk það er sem þeim ber skylda að standa með því einn daginn verða þeir gamlir og þurfa á öldrunarþjónustu að halda.

Skoðað: 2359

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

komment