Hestarnir

IMG_5419

Ísold frá Skíðbakka

Best þekkt sem Flicka

IS2004284382

F. Óþekkt

M. Óþekkt

Litur: Moldótt

Kyn: Hryssa

BLUP: Ekki til staðar

Flicku eignaðist ég um áramótin 2011-2012, þá 8 vetra gömul og einungis reiðfær.

Ég heillaðist strax af Flicku þrátt fyrir að hún væri ekki fulltamin eða með nokkurra ætt á bak við sig.

Það var eitthvað við hana sem greip mig og sem rígheldur enn þann daginn í dag.

Hún Flicka mín er ekki eins og hvert annað hross. Hún er sjálfstæð og veit alveg hvað hún vill.

Hún minnir eiginlega meira á þrjóska miðaldra dívu heldur en hross vegna þess að þú færð hana ekki til að gera hvað sem er.

Það er eins og hún sé alltaf að plotta einhvern skandal í kollinum á sér og það er auðvelt að sjá púkann í augunum á henni.

Maður þarf að semja mikið við hana og sannfæra hana um nánast allt, svolítið eins og með viðskiptamenn, þegar það þarf að sannfæra þá um að þeir séu að fjárfesta í einhverju vitrænu.

Ég skal líka alveg viðurkenna það að ég hef oft ætlað að gefast upp á þessari þrjósku meri, en það er eitthvað við hana sem rígheldur í mig.

Draumurinn með Flicku er að reyna að nota hana svolítið í ræktun vegna þess að þrátt fyrir þennan einstaklega flókna karakter, þá er þessi meri með hjarta úr gulli og vonandi gefur hún það frá sér.

.

.

.

IMG_5209

Viðja frá Snjallsteinshöfða

IS2007286713

F. Taktur frá Tjarnarlandi (Ae. 8.37)

M. Móheiður frá Engimýri (Ae. 8.06)

Litur: Móbrún, stjörnótt

Kyn: Hryssa

BLUP: 113

Viðju eignaðist ég haustið 2012, í skiptum á móti gömlum barnahesti.

Viðja var einungis 5 vetra gömul, ekki fulltamin en reiðfær.

Ég var nú ekkert að leita að ungu hrossi og var ekkert sérstaklega spennt en ég ákvað samt að fara og skoða þessa ungu og efnilegu hryssu sem í boði var.

Stóðinu var safnað saman í gerði við hólfið og eigendurnir bentu mér á þessa gullfallegu, sperrtu hryssu.

Það var erfitt að komast að henni en hún var samt óskaplega forvitin og með ofboðslega ljúf og góð augu.

Eftir góðan eltingaleik við eigandann sem skilaði litlu, ákvað ég að reyna sjálf, ég gekk rólega til hennar og spjallaði við hana og fékk nú að klappa henni og eiga örlítið við hana.

Næst var að reyna að mýla hana en það fór nú svo að ég fékk rækilegt högg í nefið þannig að það fossblæddi!

Þá var hryssan svona hrikalega eyrnastygg og brást við með því að rykkja höfðinu til og beint í andlitið á mér.

En þrátt fyrir þessi ferlegu fyrstu kynni, ákvað ég að taka boðinu og fékk hryssuna til mín nokkru síðar.

Hún Viðja mín er rosalega ör og næm týpa, stór og mikil og alltaf vel reist.

Hún er með hjarta úr gulli og er alveg yndisleg þegar hún treystir, en þá á maður hana með húð og hári.

Hún er alveg einstök!

Hún verður eingöngu notuð til ræktunar.

.

.

.

IMG_2159

Perla frá Selfossi

IS2012282789

F. Félagi frá Skeggsstöðum (Sköpulag: 7.82)

M. Óþekkt

Litur: Leirljósskjótt

Kyn: Hryssa

BLUP: 91

Perlu keypti ég haustið 2012 úr hópi sláturfolalda.

Ástæðan fyrir því að ég valdi hana var einföld. Liturinn og rétta kynið.

Fyrsta veturinn hélt ég að hún var leirljós, nösótt, en sumarið 2013, þá veturgömul, sýndi hún sinn rétta lit.

Mér brá svolítið þegar ég sá þessa skjóttu dömu taka á móti mér, en þá var ég ekki búin að sjá hana almennilega í smá tíma.

Ég var lengi að sannfæra sjálfa mig um það að skvísan væri skjótt og ég var mikið í því að bera saman myndir af henni áður en ég áttaði mig fullkomlega á því að ég væri með rétta hrossið í höndunum.

Ég var lengi að trúa því vegna þess að mig hafði lengi dreymt um að eignast leirljósskjótta hryssu.

Svona er víst að vera „litafrík“…

Hún er stór og stæðileg og samsvarar sér mjög vel og virkar efnileg með mjúkar og fjaðrandi hreyfingar.

En hún er líka sjálfstæð og ákveðin karakter en samt mjög auðveld og þægileg í allri umgengni og mjög ljúf og róleg, algjör draumakarakter fyrir svona ungt hross!

Það er ekki margt sem fær hana til að kippast til, en þegar hún var veturgömul, sumarið 2013, ögraði hún hundinum sem var að snuðra í kringum hana og rak hann frá, þegar hann var að reyna að reka hana áfram eins og hann hafði gert með systkyni hennar 3 (samfeðra), en hún ætlaði sko ekki að láta hann stjórna sér.

Sumarið sem hún var 2 vetra gömul var ég spurð af nágranna okkar úti í hesthúsahverfi hvort það ætti ekki að temja þessa stóru og flottu hryssu um haustið, en þegar ég sagði honum að hún væri nú bara 2 vetra, þá virtist honum bregða aðeins, enda var hún heldur stór fyrir 2 vetra tryppi og leit út fyrir að vera komin á tamningaraldur.

Hún er mjög gáfuð og skynsöm miðað við aldur.

Perla verður notuð til reiðar en einnig eitthvað í ræktun seinna meir.

Svo kemur það í ljós hvort hún henti kannski á minni mót einn daginn, en ég vona það.

.

.

.

IMG_5536

Frakkur frá Garðabæ

IS2008125466

F. Gídeon frá Lækjarbotnum (ae. 8.48)

M. Fönn frá Ytri-Kóngsbakka

Litur: Leirljós, tvístjörnóttur

Kyn: Geldingur

BLUP: 107

Frakk keypti ég vorið 2013, þá 5 vetra gamlan og ný gangsettann.

Frakkur er stór og mikill hestur með mikinn og sterkann karakter!

Hann er sterklega byggður og ber sig vel, hringar makkann fallega og er nokkuð efnilegur með góðar og mjúkar gangtegundir.

Hann er hágengur og á mjög auðvelt með að bera sig, hann er mjög léttur og þjáll í beisli.

Hann hentar öllum, börnum, byrjendum og lengra komnum knöpum en þetta er hestur sem allir vilja eiga og allir ættu að hafa einn svona hest í húsinu hjá sér!

Það eina sem háir honum er smávegis viljaleysi… En það kemur með tímanum.

Hann Frakkur er góður vinur en hann getur verið óttalegur púki stundum, en hann er þessi hestur sem er erfitt að vera of lengi reiður út í.

Hann getur verið svolítill kjáni stundum en þetta er hestur sem fær mann til að brosa.

Í framtíðinni verður hann flottur reiðhestur og keppnishestur.

.

.

.

1504214_10152561577857987_5922273172677384809_o

(Betri mynd væntanleg)

Myrká frá Hólakoti

IS2012264007

F. Friðrik X frá Vestri-Leirárgörðum (Ae. 8.08)

M. Sæla frá Hraukbæ

Litur: Móálótt, verður grá

Kyn: Hryssa

BLUP: 104

Myrká fékk ég í skiptum fyrir annað hross í lok árs 2014.

Ég fékk hana bandvana og var með hana á húsi allt vorið 2015 til að kynnast henni og kenna henni grunninn, eins og að teymast meira, taka upp lappir og snerti hana alls staðar og kembdi.

Hún Myrká er algjör gullmoli og ljúflingur en hún fær geðslagið klárlega frá föður sínum, en hann varð frægur árið 2011 þegar hann bar 5 ára gamlan knapa á bakinu með rosalegum tilþrifum í leiðindarveðri fyrir norðan! Alveg síðan ég sá það myndband hefur mig langað í afkvæmi undan þessum hesti, en hann var því miður felldur sumarið 2013 þegar hann fékk krabbamein, en svona geðslag er mjög sjaldgæft að mínu mati.

Hún Myrká er ekki mjög lofthá né hreyfingamikil, en geðslagið er alveg 100%!

Hún er auðveld, jákvæð og skemmtileg og einnig er hún mjög mannelsk, en án þess þó að vera frek eða með nokkurs konar yfirgang.

Ég býst við því að hún verði mjög gott reiðhross, en það er aldrei að vita þegar um ungt hross er að ræða, hún gæti allt eins leynt á sér þegar hún er komin undir knapa…!

En hún er með mjög góða ætt í báða leggi. Faðir hennar er undan Gusti frá Hóli og Dömu frá Vestri-Leirárgörðum, en Dama er undan Drottningu frá Vestri-Leirárgörðum.

Drottning varð í 2.sæti í A-flokki gæðinga á Fjórðungsmóti á Kaldármelum 1988!

Dama er einning undan Degi frá Kjarnholtum en hann var með 1. verðlaun fyrir afkvæmi og 8.57 fyrir hæfileika og þar af 9.5 fyrir tölt!

Móðir Myrkáar er undan Otri frá Sauðárkróki, en hann þarf vart að kynna.

Sæla, móðir Myrkáar, hefur gefið mikið af hágengum og flottum afkvæmum og flest þeirra hafa selst út.

Eins og sjá má er hún Myrká mín með þrusuætt á bak við sig, en nr. 1, 2 og 3 hjá mér, er þetta yndislega geðslag hennar, það skiptir mig mestu. :)

(Þó svo ættin sé auðvitað stór plús líka, tíhí!)

.

.

.

10669174_10152383996776971_878125262502872507_o

Ljómi frá Kolsholtshelli

IS2014182559

F. Sólar frá Kaldbak

M. Diljá frá Kolsholtshelli

Litur: Bleikálóttur

Kyn: Geldingur

BLUP: 105

Ég keypti Ljóma haustið 2014 úr hópi sláturfolalda (já, ég er svolítið veik fyrir litlum sláturfolöldum).

Þegar vinkona mín sýndi mér myndir af folöldum sem hún var að selja fyrir fólkið á bænum og sagði mér að þau færu í slátur ef þau seldust ekki, þá fór ég að skoða myndirnar og varð veik.

Ég varð að bjarga einu. Þá sá ég mynd af þessu fallega bleikálótta folaldi og kolféll (sama mynd og hér fyrir ofan).

Við héldum fyrst að þetta væri hryssa og þegar við fórum að skoða folöldin í haganum sáum við hvergi þessa fallegu hryssu, svo ég missti aðeins vonina og fór að skoða tvö móálótt hestfolöld.

Ég hafði séð myndir af þeim báðum, en mér leyst ekki nógu vel á þá þegar ég sá þá með eigin augum (engar áhyggjur, þeir seldust út til Þýskalands ásamt flestum hinum).

Ég var við það að hætta við að kaupa folald, en þegar við vorum að gera okkur klár til að fara, þá kemur þetta gullfallega og forvitna bleikálótta folald labbandi í áttina til mín og starir sperrt á mig.

Það mjakaðist nær þegar ég settist niður á jörðina og þefaði áhugasamt af mér, og þá kveikti ég á perunni, en þetta var folaldið sem ég kolféll fyrir á myndinni, en eini gallinn var að þetta var hestur.

Þetta gæti hljómað kjánalega í eyrum sums fólks, en mér fannst vera einhver tengsl á milli mín og þessa folalds, svo ég ákvað að kaupa það.

Ég nefndi hann Ljóma í höfuðið á gömlum höfðingja sem hélt áhuganum mínum á hestamennskunni uppi í nokkur ár.

Sá hestur var sá fyrsti sem tölti með mig og ég reið honum nokkuð mikið og hafði mjög gaman af, en sá hestur var felldur eftir að hafa lent í slysi, en hann átti þónokkur ár eftir.

Þeim hesti gleymi ég aldrei, en hann var líka bleikálóttur.

Ljómi minn ætlar greinilega að bera nafnið vel því hann er sennilega það allra auðveldasta folald sem ég hef kynnst!

Hann tók múlnum strax vel og teymdist strax, labbaði strax upp á kerru án vandræða (meira að segja af sjálfsdáðum, bæði upp og niður til skiptis), finnst gott að láta kemba sér og kippti sér ekkert upp við það þegar hann var örmerktur, einungis tæplega veturgamall.

Hann fer um á öllum gangi en þó mest á tölti, en hefur líka sýnt brokk og skeið.

Ljómi verður notaður til reiðar í framtíðinni og ég er mjög spennt fyrir því að sjá hvernig hann þróast með tímanum.